Fréttir

Ný verðskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi 12. janúar 2022

Ný verðskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi frá og með 12. janúar 2022. Tvær meginbreytingar eru gerðar frá núgildandi verðskrá. Annars vegar er verðflokkum fyrir fyrirframgreiddar ferðir fækkað úr þremur í einn og hins vegar gefst umráðamönnum fólksbíla kostur á að greiða fast mánaðargjald fyrir akstur um göngin óháð fjölda ferða.

Á árinu 2020 gekk umferð um Vaðlaheiðargöng vel og án óhappa.

Á árinu 2020 gekk umferð um Vaðlaheiðargöng vel og án óhappa. Heildarumferð á árinu var 414 þúsund ferðir sem er um 100 þúsund færri ferðir en árið 2019 þetta er samdráttur upp á 19,5%.

Veggjald lækkar í Vaðlaheiðargöngum

Frá og með 1. júní 2020 verður gerð einföldun og lækkun á innheimtu veggjalds fyrir þá sem keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng án þess að skrá ökutækin sín. Þannig lækkar greiðsla á veggjaldi úr 2.500 krónum í 1.500 krónur hverja ferð fyrir fólksbíla sem keyra beint í gegn án þess að skrá sig. Sem fyrr stofnast krafa sjálfkrafa í heimabanka hjá eigandi eða umráðamanni ökutækis sem hefur tíu daga til að greiða.

Um 528 þúsund bílar um Vaðlaheiðargöng fyrsta rekstrarárið - formleg opnun ganganna fyrir einu ári

Í dag, 12. janúar, er eitt ár liðið síðan Vaðlaheiðargöng voru formlega opnuð fyrir umferð. Óhætt er að segja að opnunardagurinn sé afar eftirminnilegur, gríðarlegur fjöldi fólks tók þátt í opnun ganganna með ýmsum hætti og kaffisamsæti á Svalbarðseyri.

Ár liðið frá því Vaðlaheiðargöng voru opnuð fyrir umferð

Í dag, 21. desember, er eitt ár liðið frá því Vaðlaheiðargöng voru opnuð fyrir umferð. Formleg opnun ganganna var þó ekki fyrr en 12. janúar 2019.

Gleðileg jól!

Vaðlaheiðargöng óska landsmönnum öllum gleðiríkrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári. Með þökk fyrir samstarfið á þessu fyrsta starfsári ganganna.

Aukin þjónusta og öryggi fólks austan ganganna

Tilkoma Vaðlaheiðarganga og betra samstarf viðbragðshópa hefur aukið þjónustu og öryggi fólks austan ganganna, segir slökkviliðsstjórinn á Akureyri í viðtali við Úllu Árdal, fréttamann Ríkisútvarpsins á Akureyri. Fréttin er á 20. mín. í fréttum Rúv laugardaginn 12. október.

Hlutfallslega fleiri Asíubúar sem aka Vaðlaheiðargöng í haust

Eins og vera ber aka margir erlendir ferðamenn í gegnum Vaðlaheiðargöng og er hlutfall þeirra hærra yfir sumarmánuðina en yfir vetrarmánuðina. Reyndar sést heildarmyndin fyrir árið ekki fyrr en í árslok en í takti við mestan fjölda ferðamanna yfir hásumarið – frá maí og til og með september – hafa mun fleiri ferðamenn ekið í gegnum göngin í sumar en síðasta vetur. Ef skoðaðar eru tölur yfir þá útlendinga sem hafa greitt veggjald í Vaðlaheiðargöngum frá því þau voru opnuð í ársbyrjun kemur í ljós að Bandaríkjamenn eru þar efst á blaði, Þjóðverjar eru í öðru sæti og Frakkar í því þriðja. Í haust hefur mynstrið breyst eilítið, eftir sem áður eru Bandaríkjamenn og Þjóðverjar efstir á blaði en síðan koma Kínverjar í þriðja sæti. Samkvæmt tölum sjö síðustu daga er óbreytt að Bandaríkjamenn verma efsta sætið, Þjóðverjar í öðru sæti og Kínverjar í því þriðja. Í fjórða sæti eru Frakkar og Taiwanar eru síðan í því fimmta.

Sjónvarpsþáttur um samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga

Í síðustu viku var frumsýndur þáttur á sjónvarpsstöðinni N4 nýr þáttur í umsjón Karls Eskils Pálssonar um samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga. Þátturinn er hluti af þáttaröð þar sem fjallað hefur verið með sambærilegum hætti um samfélagsleg áhrif hinna þriggja jarðganganna á Norðurlandi - Strákaganga við Siglufjörð, Múlaganga frá Eyjafirði til Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðarganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

Vaðlaheiðargöng hafa skipt sköpum með sjúkraflutninga

Vaðlaheiðargöng hafa skipt sköpum - segir Eysteinn Heiðar Kristjánsson, yfirmaður sjúkraflutninga HSN í Þingeyjarsýslu Eysteinn Heiðar Kristjánsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Þingeyjarsýslum, segir að tilkoma Vaðlaheiðarganga í ársbyrjun hafi stóraukið öryggi fólks austan Vaðlaheiðar. Göngin hafi gert það að verkum að unnt hafi verið að koma á ákveðinni verkaskiptingu Akureyrar og Húsavíkur gagnvart sjúkraflutningum í Suður-Þingeyjarsýslu og jafnframt hafi þjónustan verið stóraukin. Hann segir að af tæplega 500 sjúkraútköllum á Húsavík fari sjúkrabílar með fólk í rösklega þrjúhundruð tilvika á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þarna skipti göngin sköpum, ekki síst yfir vetrarmánuðina. „Augljóslega hafa göngin stytt tímann sem tekur að koma veiku eða slösuðu fólki á sérhæft sjúkrahús á Akureyri. Hitt sem vill oft gleymast í þessu sambandi er að göngin stytta einnig tímann sem sjúkrabílarnir eru í burtu úr héraði, það tekur einfaldlega skemmri tíma að koma fólki til Akureyrar og að sama skapi tekur það skemmri tíma fyrir bílana að koma aftur austur. Þetta skiptir verulega miklu máli fyrir okkar svæði,“ segir Eysteinn. Hann nefnir líka að með göngunum hafi orðið til ákveðin verkaskipting milli sjúkraflutninga frá Húsavík og Akureyri. Nú sjái Slökkviliðið á Akureyri um sjúkraflutninga af vesturhluta svæðisins, næst austari gangamunnanum, en sjúkraflutningamenn á Húsavík hafi umsjón með austari hluta svæðisins. Í þessu sambandi nefnir Eysteinn að ef verði slys eða bráð veikindi fólks við Goðafoss, sem er eins og kunnugt er einn fjölfarnasti ferðmannnastaður á Norðurlandi, komi sjúkrabílar á svæðið bæði frá Húsavík og Akureyri. Með öðrum orðum, tilkoma Vaðlaheiðarganga hafi gert það að verkum að unnt hafi verið að stórauka öryggisþjónustu við fólk austan Vaðlaheiðar varðandi heilbrigðisþjónustu. Eysteinn rifjar upp að áður en göngin komu til sögunnar hafi vaktmaður sjúkraflutninga á Húsavík verið vakandi og sofandi yfir veðurspá og ástandi vega í Víkurskarði og Dalsmynni. Sem kunnugt er séu veður oft mjög válynd í Víkurskarði í ákveðnum áttum yfir veturinn og Dalsmynnið geti einnig verið varhugavert vegna snjóflóðahættu í vondum vetrarveðrum. Eftir sem áður séu vissulega staðir í Ljósavatnsskarði þar sem færð geti spillst en mun auðveldara sé að halda þeim vegarkafla opnum en Víkurskarði. Vaðlaheiðargöngin hafi því tvímælaust sannað sig nú þegar hvað öryggi fólks varðar. „Á síðasta ári fóru sjúkrabílar hér á Húsavík í 470 verkefni og í miklum meirihluta þeirra fórum við með sjúklingana á Sjúkrahúsið á Akureyri. Ég hef ekki nákvæma tölu en það lætur nærri að sjúkrabíll fari frá okkur í gegnum Vaðlaheiðargöng að jafnaði einu sinni á dag, allt árið,” segir Eysteinn. Þessu til viðbótar nefnir hann að Vaðlaheiðargöng hafi, ef svo megi að orði komast, tryggt aukið flæði sérhæfðs starfsfólks á milli stofnana innan Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og stuðlað þannig að betri þjónustu, bæði austan og vestan ganganna.