Fréttir

Ár liðið frá því Vaðlaheiðargöng voru opnuð fyrir umferð

Í dag, 21. desember, er eitt ár liðið frá því Vaðlaheiðargöng voru opnuð fyrir umferð. Formleg opnun ganganna var þó ekki fyrr en 12. janúar 2019.

Gleðileg jól!

Vaðlaheiðargöng óska landsmönnum öllum gleðiríkrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári. Með þökk fyrir samstarfið á þessu fyrsta starfsári ganganna.

Aukin þjónusta og öryggi fólks austan ganganna

Tilkoma Vaðlaheiðarganga og betra samstarf viðbragðshópa hefur aukið þjónustu og öryggi fólks austan ganganna, segir slökkviliðsstjórinn á Akureyri í viðtali við Úllu Árdal, fréttamann Ríkisútvarpsins á Akureyri. Fréttin er á 20. mín. í fréttum Rúv laugardaginn 12. október.

Hlutfallslega fleiri Asíubúar sem aka Vaðlaheiðargöng í haust

Eins og vera ber aka margir erlendir ferðamenn í gegnum Vaðlaheiðargöng og er hlutfall þeirra hærra yfir sumarmánuðina en yfir vetrarmánuðina. Reyndar sést heildarmyndin fyrir árið ekki fyrr en í árslok en í takti við mestan fjölda ferðamanna yfir hásumarið – frá maí og til og með september – hafa mun fleiri ferðamenn ekið í gegnum göngin í sumar en síðasta vetur. Ef skoðaðar eru tölur yfir þá útlendinga sem hafa greitt veggjald í Vaðlaheiðargöngum frá því þau voru opnuð í ársbyrjun kemur í ljós að Bandaríkjamenn eru þar efst á blaði, Þjóðverjar eru í öðru sæti og Frakkar í því þriðja. Í haust hefur mynstrið breyst eilítið, eftir sem áður eru Bandaríkjamenn og Þjóðverjar efstir á blaði en síðan koma Kínverjar í þriðja sæti. Samkvæmt tölum sjö síðustu daga er óbreytt að Bandaríkjamenn verma efsta sætið, Þjóðverjar í öðru sæti og Kínverjar í því þriðja. Í fjórða sæti eru Frakkar og Taiwanar eru síðan í því fimmta.

Sjónvarpsþáttur um samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga

Í síðustu viku var frumsýndur þáttur á sjónvarpsstöðinni N4 nýr þáttur í umsjón Karls Eskils Pálssonar um samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga. Þátturinn er hluti af þáttaröð þar sem fjallað hefur verið með sambærilegum hætti um samfélagsleg áhrif hinna þriggja jarðganganna á Norðurlandi - Strákaganga við Siglufjörð, Múlaganga frá Eyjafirði til Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðarganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

Vaðlaheiðargöng hafa skipt sköpum með sjúkraflutninga

Vaðlaheiðargöng hafa skipt sköpum - segir Eysteinn Heiðar Kristjánsson, yfirmaður sjúkraflutninga HSN í Þingeyjarsýslu Eysteinn Heiðar Kristjánsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Þingeyjarsýslum, segir að tilkoma Vaðlaheiðarganga í ársbyrjun hafi stóraukið öryggi fólks austan Vaðlaheiðar. Göngin hafi gert það að verkum að unnt hafi verið að koma á ákveðinni verkaskiptingu Akureyrar og Húsavíkur gagnvart sjúkraflutningum í Suður-Þingeyjarsýslu og jafnframt hafi þjónustan verið stóraukin. Hann segir að af tæplega 500 sjúkraútköllum á Húsavík fari sjúkrabílar með fólk í rösklega þrjúhundruð tilvika á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þarna skipti göngin sköpum, ekki síst yfir vetrarmánuðina. „Augljóslega hafa göngin stytt tímann sem tekur að koma veiku eða slösuðu fólki á sérhæft sjúkrahús á Akureyri. Hitt sem vill oft gleymast í þessu sambandi er að göngin stytta einnig tímann sem sjúkrabílarnir eru í burtu úr héraði, það tekur einfaldlega skemmri tíma að koma fólki til Akureyrar og að sama skapi tekur það skemmri tíma fyrir bílana að koma aftur austur. Þetta skiptir verulega miklu máli fyrir okkar svæði,“ segir Eysteinn. Hann nefnir líka að með göngunum hafi orðið til ákveðin verkaskipting milli sjúkraflutninga frá Húsavík og Akureyri. Nú sjái Slökkviliðið á Akureyri um sjúkraflutninga af vesturhluta svæðisins, næst austari gangamunnanum, en sjúkraflutningamenn á Húsavík hafi umsjón með austari hluta svæðisins. Í þessu sambandi nefnir Eysteinn að ef verði slys eða bráð veikindi fólks við Goðafoss, sem er eins og kunnugt er einn fjölfarnasti ferðmannnastaður á Norðurlandi, komi sjúkrabílar á svæðið bæði frá Húsavík og Akureyri. Með öðrum orðum, tilkoma Vaðlaheiðarganga hafi gert það að verkum að unnt hafi verið að stórauka öryggisþjónustu við fólk austan Vaðlaheiðar varðandi heilbrigðisþjónustu. Eysteinn rifjar upp að áður en göngin komu til sögunnar hafi vaktmaður sjúkraflutninga á Húsavík verið vakandi og sofandi yfir veðurspá og ástandi vega í Víkurskarði og Dalsmynni. Sem kunnugt er séu veður oft mjög válynd í Víkurskarði í ákveðnum áttum yfir veturinn og Dalsmynnið geti einnig verið varhugavert vegna snjóflóðahættu í vondum vetrarveðrum. Eftir sem áður séu vissulega staðir í Ljósavatnsskarði þar sem færð geti spillst en mun auðveldara sé að halda þeim vegarkafla opnum en Víkurskarði. Vaðlaheiðargöngin hafi því tvímælaust sannað sig nú þegar hvað öryggi fólks varðar. „Á síðasta ári fóru sjúkrabílar hér á Húsavík í 470 verkefni og í miklum meirihluta þeirra fórum við með sjúklingana á Sjúkrahúsið á Akureyri. Ég hef ekki nákvæma tölu en það lætur nærri að sjúkrabíll fari frá okkur í gegnum Vaðlaheiðargöng að jafnaði einu sinni á dag, allt árið,” segir Eysteinn. Þessu til viðbótar nefnir hann að Vaðlaheiðargöng hafi, ef svo megi að orði komast, tryggt aukið flæði sérhæfðs starfsfólks á milli stofnana innan Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og stuðlað þannig að betri þjónustu, bæði austan og vestan ganganna.

Vaðlaheiðargöng undirrita loftlagsyfirlýsingu Festu

Þann 16. september sl., á Degi íslenskrar náttúru, undirrituðu fulltrúar nítján fyrirtækja og stofnana á Akureyri, þar á meðal Vaðlaheiðargöng, loftslagsyfirlýsingu Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Loftslagsyfirlýsingin hljóðar svo: „Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum. Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að: 1. Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda 2. Minnka myndun úrgangs 3. Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.“ Hin fyrirtækin og stofnanirnar sem undirrituðu yfirlýsinguna eru: Akureyrarbær, Hafnarsamlag Norðurlands, ProMat, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Mjólkursamsalan, Ekill/Ekja, Toyota á Akureyri, Vistorka, Orkusetrið, HGH verk, Icevape, Norðlenska, Menningarfélag Akureyrar, Zenon, Enor, Markaðsstofa Norðurlands, Icelandair Hotels Akureyri og Sjúkrahúsið Á Akureyri. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að með þessari yfirlýsingu vilji Vaðlaheiðargöng leggja sitt af mörkum með opnu kolefnisbókahaldi þar sem komi skýrt fram ávinningurinn af því að keyra í gegnum göngin. Með því að aka göngin sé ótvírætt dregið úr útblæstri og loftmengun og þann ávinning sé unnt að mæla og gefa reglulegar upplýsingar um, eins og yfirlýsingin feli í sér.

Breytingar á gjaldskrá Vaðlaheiðarganga taka gildi frá og með 15. maí 2019

Þann 15. maí 2019 taka gildi breytingar á gjaldskrá Vaðlaheiðarganga. Stærsta breytingin felst í nýjum gjaldflokki fyrir millistærð af bílum, t.d. pallbíla, húsbíla og minni langferðabíla (sprintera). 1. Nýr gjaldflokkur bætist við fyrir bíla með skráða heildarþyngd frá 3.501 og upp í 7.500 kg. Gjald fyrir hverja ferð í þessum þyngdarflokki verður kr. 2.900 ef ökutækið er ekki skráð á veggjald.is en ef ökutækið er skráð á veggjald.is er gjaldið fyrir hverja ferð kr. 2.523 (13% afsláttur). Í þessum gjaldflokki eru ekki seldar fyrirfram ferðir á öðrum afsláttarkjörum. 2. Gjald fyrir staka ferð ökutækja með skráða heildarþyngd 7.501 kg eða yfir verður 6.000 kr. ef bifreiðin er ekki skráð á veggjald.is. Sé hún hins vegar skráð á veggjald.is verður gjaldið fyrir hverja ferð kr. 5.220 kr. (13% afsláttur). Í þessum gjaldflokki eru ekki seldar fyrirfram ferðir á öðrum afsláttarkjörum. 3. Gjaldflokkur fólksbíla með skráða heildarþyngd að 3.500 kg verður óbreytt. Hver ferð kostar kr. 1.500 ef ökutækið er skráð á veggjald.is. Sé ökutækið hins vegar ekki skráð á veggjald.is er veggjaldið kr. 2.500. Með því að kaupa ferðir fyrirfram bjóðast sömu afsláttarkjör og áður: 10 ferðir – kr. 1.250 ferðin 40 ferðir – kr. 900 ferðin 100 ferðir – kr. 700 ferðin. 4. Frá því að gjaldtaka hófst í Vaðlaheiðargöngum 2. janúar sl. hefur vegfarendum staðið til boða að kaupa staka ferð í gegnum göngin á kr. 1.500 á veggjald.is eða tunnel.is eða með símaappi allt að þremur tímum áður eða þremur tímum eftir að ekið er í gegnum göngin. Að öðrum kosti hefur veggjaldið verið innheimt af umráðamanni ökutækis að viðbættu 1.000 kr. álagi. Eftir sem áður býðst vegfarendum að kaupa stakar ferðir en sú breyting hefur verið gerð að vegfarendum er það í sjálfsvald sett hversu löngu áður en ferð er áætluð í gegnum göngin þeir skrá ökutæki sín inn á veggjald.is. Sem fyrr skal veggjaldið þó hafa verið greitt eigi síðar en þremur tímum eftir að ferðin er farin. Í þessu sambandi skal undirstrikað að þó svo að ökutæki hafi verið skráð á veggjald.is innheimtist veggjaldið ekki nema að ökutækinu sé ekið í gegnum göngin.

Mesta umferð um Vaðlaheiðargöng til þessa laugardaginn fyrir páska

Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar á umferð, annars vegar í Vaðlaheiðargöngum og hins vegar í Víkurskarði, var rösklega 17% meiri umferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals samanborið við páskana 2018. Ef til vill hefði mátt búast við 2-5% aukinni umferð en mögulega er skýringa á þessari miklu aukningu að leita í því að páskarnir voru óvenju seint að þessu sinni, síðari hluta apríl, en árið 2018 voru þeir í mars. Það kann að vera að fleiri hafi verið á faraldsfæti vegna þess hversu seint páskarnir voru í ár og veður var gott, í það minnsta var vitað að óvenju margir gestir sóttu Akureyri heim um páskana.

Glæsilegt samgöngumannvirki sem skiptir sköpum

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðinnar, flutti eftirfarandi ávarp við opnun Vaðlaheiðarganga: Góðir gestir. Ég vil byrja á því að færa ykkur góðar kveðjur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar sem því miður getur ekki verið með okkur hér í dag. Dagurinn í dag markar stóran áfanga í sögu samgangna á Íslandi. Með opnun Vaðlaheiðarganga er enn einum farartálma eytt. Ferðalangar munu ekki aftur þurfa að bíða þess að lygni eða snjóruðningstæki nái í gegnum fannfergið og vegurinn opni á ný. Nú eru liðin tæp 30 ár frá því að Vegagerðin gerði fyrst úttekt á mögulegum jarðgöngum undir Vaðlaheiði og ríflega 15 ár frá því að ákvörðun um að leita leiða til að koma hugmyndinni í framkvæmd lá fyrir með stofnun Greiðrar leiðar, félags um gerð Vaðlaheiðarganga. Í kjölfarið var svo lögð fram þingsályktunartillaga um að kanna til hlítar möguleika gangnagerðarinnar. Alþingi samþykkti svo samgönguáætlun þar sem um Vaðlaheiðargöng sagði að göngin skyldu fjármagnast með sérstakri fjáröflun, það er í samstarfsframkvæmd ríkis og einkaðila með veggjöldum. Vinna við undirbúning hélt áfram og árið 2010, tuttugu árum eftir að Vaðlaheiðargöng komu fyrst til umræðu, samþykkti Alþingi lög sem heimiluðu Vegagerðinni að taka þátt í stofnun félags um gerð Vaðlaheiðarganga. Ári síðar varð félagið Vaðlaheiðargöng ehf til og í kjölfarið fylgdi vilyrði Alþingis fyrir láni úr ríkissjóði til gangagerðarinnar. Loks var árið 2012 gerður samningur ráðuneytisins við félagið um gerð og rekstur Vaðlaheiðarganga og þar með gátu framkvæmdir hafist. Áhrif samgöngubóta á borð við Vaðlaheiðargöng verða okkur sífellt betur ljós. Vegalengdir styttast, greiðfærni og umferðaröryggi eykst. Hægt er að mæla ávinninginn í færri eknum kílómetrum og færri slysum. Ávinningurinn sem fæst í auknum tækifærum til atvinnusköpunar og nýtingar á vaxtarsprotum sem áður var erfitt að nálgast er hins vegar erfitt að mæla eða meta. Hann er hins vegar raunverulegur eins og best hefur komið í ljós ef skoðuð er byggðaþróun á Akranesi á þeim árum sem liðin eru frá því Hvalfjarðargöngin voru opnuð. Líkt og í tilfelli Hvalfjarðarganga hafa menn við byggingu Vaðlaheiðarganga ekki farið varhluta af gagnrýni á framkvæmdina og þegar leit út fyrir að göngin breyttust í lengsta gufubað mannkynssögunnar með tilheyrandi kostnaðarauka, þá voru úrtöluraddirnar margar. Það er nefnilega þannig að fáar framkvæmdir eru haldnar álíka óvissu og jarðgangagerð. Þegar komið er inn í iður fjalla geta komið upp óvæntar aðstæður sem engin nútíma tækni ræður við að kortleggja. Þrátt fyrir þessar áskoranir hefur framkvæmdaaðilum tekist að klára göngin þannig að við stöndum nú í glæsilegu samgöngumannvirki sem skiptir sköpum um öryggi og greiðfærni í samgöngum á Norðurlandi. Vaðlaheiðargöng eru lýsandi dæmi um þann driftkraft sem felst í samstarfi sem flýtir framkvæmdum sem eru hagkvæmar, stytta leiðir og auka öryggi hraðar en annars væri gerlegt og ég er sannfærð um að þrátt fyrir áföll við gerð ganganna munu þær raunir fljótt gleymast þegar ávinningurinn af bættum samgöngum verður öllum ljós. Góðir gestir. Ég óska öllu því framsýna fólki sem lagt hefur bæði hugvit og verkvit til þessa verks til hamingju með árangurinn. Ég vil einnig óska landsmönnum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga í þjóðvegakerfi landsins.