Um göngin

 

Vaðlaheiðargöng eru veggöng undir Vaðlaheiði. Göngin eru um 7,2 km í bergi milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals og heildarlengd vegskála er 280 m, samtals eru göngin því um 7,5 km. Með þeim styttist vegalengd milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km og ekki þarf lengur að aka um fjallveginn Víkurskarð þar sem vetrarfærð er oft erfið.

Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í árslok 2016 en vegna ýmissa ófyriséðra tafa lauk þeim ekki fyrr en í árslok árið 2018. Gangagreftri/sprengingum lauk 28. apríl 2017 og þá tók við frágangur inni í göngunum og utan þeirra, s.s. lagning vega, lagnavinna, strengja-, vatns- og frostklæðningar og uppsetning rafbúnaðar. 

Ýmsar upplýsingar um Vaðlaheiðargöng

Þversnið ganga er samkvæmt norskum reglum og nefnist T 9,5, breidd ganganna er um 9,5 m í veghæð, þverskurðarflatarmál 67 m2. Halli veglínunnar í göngunum er 1,5% í átt að Eyjafirði en austustu 500 metrarnir í göngunum halla að Fnjóskadal. 

Í göngunum eru fjórtán útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Í þeim eru fjögur steypt tæknirými og tvö við hlið vegskála. Bróðurpartur rafmagns- og öryggisbúnaðar er í tæknirýmum, meðal annars sex spennistöðvar.  Í útskotum eru neyðarsímar en á milli þeirra eru neyðarsímar í skápum á veggjum. Tuttugu loftræsiblásarar, einn metri í þvermál hver, eru í göngunum, tveir og tveir saman á fjórum svæðum við tæknirýmin.

Verkkaupi:                                            Vaðlaheiðargöng hf
Aðalverktaki:                                   ÍAV hf. og Marti Contractors Lts. frá Sviss
Framkvæmdaeftirlit:                      Efla verkfræðistofa og GeoTek.
Lengd:                                              7,2 km
Breidd:                                             9,5 m í veghæð
Þverskurðarflatarmál:                    66,7 fermetrar
Heildarlengd vegskála:                  280 m
Vegskáli Eyjafjarðarmegin:            88 m
Vegskáli Fnjóskadalsmegin:          188 m
Vegir að göngum:                          4,1 km     
Vegur Eyjafjarðarmegin:                1,2 km auk hringtorgs
Vegur Fnjóskadalsmegin:              2,9 km 
Gröftur jarðganganna:                   500.000 rúmmetrar
Sprautusteypa:                               25.000 rúmmetrar
Steinsteypa:                                    3.000 rúmmetrar
Forskering:                                      100.000 rúmmetrar
Fylling:                                             400.000 rúmmetrar

Vegagerðin stjórnaði hönnun ganganna. Ráðgjöf veittu verkfræðistofurnar Mannvit, Verkís, Efla og Verkfræðistofa Norðurlands. Vegagerðin annaðist einnig hönnun veglínu. Hönnunarstjóri var Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar.