Ný verðskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi 12. janúar 2022

Ný verðskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi 12. janúar 2022.
Ný verðskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi 12. janúar 2022.

Ný verðskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi frá og með 12. janúar 2022. Tvær meginbreytingar eru gerðar frá núgildandi verðskrá. Annars vegar er verðflokkum fyrir fyrirframgreiddar ferðir fækkað úr þremur í einn og hins vegar gefst umráðamönnum fólksbíla kostur á að greiða fast mánaðargjald fyrir akstur um göngin óháð fjölda ferða.

Verðskrá Vaðlaheiðarganga hefur ekki hækkað frá því að göngin voru opnuð fyrir þremur árum  en á þeim tíma hefur neysluvísitala hækkað um 11%.

Frá því að gjaldtaka hófst í Vaðlaheiðargöng í ársbyrjun 2019 hefur verið veittur afsláttur af fyrirframgreiddum ferðum fyrir ökutæki undir 3,5 tonnum; 10 ferðir, 40 ferðir og 100 ferðir.

Sem fyrr býðst vegfarendum að kaupa fyrirfram 10 ferðir á veggjald.is fyrir 12.500 krónur – 1.250 kr. hver ferð. Hins vegar verða 40 ferða og 100 ferða afsláttarflokkar aflagðir en þess í stað býðst vegfarendum að kaupa fyrirfram 50 ferðir á 40.000 kr. -  hver ferð kostar þá 800 kr.

Þeir sem hafa til þessa keypt 100 ferðir fyrirfram hafa greitt fyrir þær 70.000 kr. eða 700 kr. ferðina. Þeir sem hins vegar hafa keypt 40 ferðir fyrirfram hafa greitt 36.000 kr. eða 900 kr. fyrir hverja ferð. Með nýrri verðskrá verður, sem fyrr segir, einn afsláttarflokkur fyrir fyrirframgreiddar ferðir og kostar hver ferð kr. 800.

Með nýrri verðskrá er nú til reynslu boðið upp á 21.000 kr. mánaðargjald fyrir akstur fólksbíla um göngin. Með föstu mánaðargjaldi vilja Vaðlaheiðargöng koma til móts við þá vegfarendur sem nota göngin mikið. Mánaðargjaldið svarar til þess að þeir sem aka göngin daglega fram og til baka greiða 350 kr. fyrir ferðina (miðað við 60 ferðir í mánuði).

Gengið er frá samningi um mánaðargjald í gegnum þjónustuver Vaðlaheiðarganga með því að senda tölvupóst á veggjald@veggjald.is og hefur þjónstufulltrúi þá samband við viðkomandi.

 

 Verðskrá Vaðlaheiðarganga - gildir frá 12. janúar 2022

 

Ökutæki undir 3,5 tonn                                                                       Hver ferð kostar

Stök ferð greidd á veggjald.is / tunnel.is              1.500 kr.

*Stök ferð greidd í heimabanka                             1.900 kr.

10 ferðir 12.500 kr.                                                                                    1.250 kr.

50 ferðir 40.000 kr.                                                                                   800 kr.

**Mánaðargjald óháð fjölda ferða                       21.000 kr.

 

Ökutæki 3,5 til 7,5 tonn

Stök ferð greidd á veggjald.is / tunnel.is              2.500 kr.

*Stök ferð greidd í heimabanka                             2.900 kr.

 

Ökutæki 7,5 tonn og yfir

Stök ferð greidd á veggjald.is / tunnel.is              5.200 kr.

*Stök ferð greidd í heimabanka eftir 24 klst.       5.600 kr.

 

11% VSK er innifalinn í veggjöldum.

24% VSK er innifalinn í innheimtugjaldi.

Greiðslutímabil fyrir staka ferð er 24 klst. fyrir eða eftir að ekið er í gegnum göngin.

*24 klst. eftir að ekið er í gegn er greiðsluseðill sendur í heimabanka umráðamanns ökutækis fyrir veggjaldinu auk 400 kr. innheimtugjalds.

**Nánari upplýsingar um mánaðargjald fæst hjá þjónustuveri í gegnum veggjald@veggjald.is.

Ef krafa er ógreidd á eindaga fer hún í innheimtu hjá innheimtufyrirtækinu Inkasso.