Fréttir

Aukin þjónusta og öryggi fólks austan ganganna

Tilkoma Vaðlaheiðarganga og betra samstarf viðbragðshópa hefur aukið þjónustu og öryggi fólks austan ganganna, segir slökkviliðsstjórinn á Akureyri í viðtali við Úllu Árdal, fréttamann Ríkisútvarpsins á Akureyri. Fréttin er á 20. mín. í fréttum Rúv laugardaginn 12. október.

Hlutfallslega fleiri Asíubúar sem aka Vaðlaheiðargöng í haust

Eins og vera ber aka margir erlendir ferðamenn í gegnum Vaðlaheiðargöng og er hlutfall þeirra hærra yfir sumarmánuðina en yfir vetrarmánuðina. Reyndar sést heildarmyndin fyrir árið ekki fyrr en í árslok en í takti við mestan fjölda ferðamanna yfir hásumarið – frá maí og til og með september – hafa mun fleiri ferðamenn ekið í gegnum göngin í sumar en síðasta vetur. Ef skoðaðar eru tölur yfir þá útlendinga sem hafa greitt veggjald í Vaðlaheiðargöngum frá því þau voru opnuð í ársbyrjun kemur í ljós að Bandaríkjamenn eru þar efst á blaði, Þjóðverjar eru í öðru sæti og Frakkar í því þriðja. Í haust hefur mynstrið breyst eilítið, eftir sem áður eru Bandaríkjamenn og Þjóðverjar efstir á blaði en síðan koma Kínverjar í þriðja sæti. Samkvæmt tölum sjö síðustu daga er óbreytt að Bandaríkjamenn verma efsta sætið, Þjóðverjar í öðru sæti og Kínverjar í því þriðja. Í fjórða sæti eru Frakkar og Taiwanar eru síðan í því fimmta.

Sjónvarpsþáttur um samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga

Í síðustu viku var frumsýndur þáttur á sjónvarpsstöðinni N4 nýr þáttur í umsjón Karls Eskils Pálssonar um samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga. Þátturinn er hluti af þáttaröð þar sem fjallað hefur verið með sambærilegum hætti um samfélagsleg áhrif hinna þriggja jarðganganna á Norðurlandi - Strákaganga við Siglufjörð, Múlaganga frá Eyjafirði til Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðarganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.