Um 528 þúsund bílar um Vaðlaheiðargöng fyrsta rekstrarárið - formleg opnun ganganna fyrir einu ári

Ekið í Vaðlaheiðargöng Eyjafjarðarmegin.
Ekið í Vaðlaheiðargöng Eyjafjarðarmegin.

Í dag, 12. janúar, er eitt ár liðið síðan Vaðlaheiðargöng voru formlega opnuð fyrir umferð. Óhætt er að segja að opnunardagurinn sé afar eftirminnilegur, gríðarlegur fjöldi fólks tók þátt í opnun ganganna með ýmsum hætti  - bæði í göngunum sjálfum og kaffisamsæti á Svalbarðseyri.

Vaðlaheiðargöng höfðu verið opnuð fyrir umferð síðdegis 21. desember og var gjaldfrítt í göngin til kl. 24:00 1. janúar 2019.

Nú liggja fyrir ýmsar tölur um umferð í Vaðlaheiðargöngum þetta fyrsta ár gjaldtöku, frá miðnætti á nýársdag til miðnættis á gamlársdag.

Fjöldi bíla í gegnum Vaðlaheiðargöng
Ef fyrst er skoðaður fjöldi bíla sem var ekið í gegnum Vaðlaheiðargöng á fyrsta rekstrarárinu kemur í ljós að heildarfjöldinn er 528.143 bílar. Á sama tíma fóru 173.980 bílar um Víkurskarð. Heildarfjöldi bíla um Vaðlaheiðargöng og Víkurskarð árið 2019 var því 702.123 bílar í samanburði við 664.463 bíla um Víkurskarð árið 2018. Með öðrum orðum; samanlögð umferð um Vaðlaheiðargöng og Víkurskarð er sem nemur 37.660 bílum meiri árið 2019 en 2018, heildaraukning umferðar milli ára er 5,7%.

Árið 2018 var sólarhringsumferðin um Víkurskarð að meðaltali 1820 bílar en árið 2019, eftir að göngin opnuðu, er sólarhringsumferðin um Vaðlaheiðargöng og Víkurskarð 1924. Aukning umferðar milli ára nemur því 104 bílum á sólarhring. Þar af er meðaltals umferðin um göngin á sólarhring 1447 bílar.

Hvenær er umferðin mest og hvenær er hún minnst?
Eins og vænta mátti er umferðin langmest yfir sumarmánuðina, þegar bæði Íslendingar og erlendir gestir eru á faraldsfæti á þjóðvegum landsins. Júlí er á toppnum, þá fór 78.481 bíll í gegnum Vaðlaheiðargöng, í ágúst voru þeir 68.932 og í júní 64.669 bílar. Umferðin er hins vegar minnst í svartasta skammdeginu, í janúar var hún 25.196 bílar, í desember 25.956 og í febrúar 26.104. Almennt eru mun færri Íslendingar á ferðinni vetrarmánuðina en yfir sumarið og auk þess dregst verulega saman umferð erlendra ferðamanna vetrarmánuðina frá nóvember til mars, enda sýna allar kannanir Ferðamálastofu að yfir vetrarmánuðina dvelja ferðamenn færri daga á landinu en yfir sumarmánuðina og yfirgnæfandi meirihluti þeirra fer ekki út fyrir suðvesturhorn landsins.

Hlutfall umferðar um Vaðlaheiðargöng / Víkurskarð
Ef skoðaðar eru hlutfallstölur um akstur annars vegar um Vaðlaheiðargöng og hins vegar Víkurskarð kemur í ljós að þegar horft er á allt árið fóru 75,2% umferðar á árinu milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar um Vaðlaheiðargöng en 24,8% um Víkurskarð. Hæst var hlutfall umferðar um Vaðlaheiðargöng rösk 92% í nýliðnum desember og vetrarmánuðina janúar til apríl og síðan aftur í nóvember var umferð um göngin ætíð milli 80 og 90% af heildarumferði milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Ef skoðaðir eru mánuðurnir frá maí til október kemur í ljós að meðaltalshlutfall umferðar um Vaðlaheiðargöng var um 72% og 28% um Víkurskarð. Sumarmánuðina júlí til september var hlutfall umferðar um göngin að jafnaði um 67%.

Hvernig er skipting bíla eftir stærð?
Ekki kemur á óvart að yfirgnæfandi fjöldi bíla sem er ekið um Vaðlaheiðargöng er undir 3,5 tonnum – með öðrum orðum fólksbíla – eða 95%. Flutningabílar – yfir 7,5 tonnum – eru 3% umferðar um göngin og millistórir bílar – 3,5-7,5 tonn – 2%.

Almennt virða ökumenn hámarkshraða í göngunum
Það verður að segja ökumönnum til hróss að almennt virða þeir 70 km hámarkshraða í göngunum. Samkvæmt mælingum frá radarskiltum reynist meðalhraði umferðar um göngin vera 69 km/klst og það sést líka að þeir sem keyra inn í göngin Fnjóskadalsmegin eru á meiri hraða þegar ekið er inn í göngin en ökumenn sem keyra inn í göngin Eyjafjarðarmegin. Ekki er teljandi munur á umferðarhraða eftir vikudögum en þó má sjá af gögnum að hann er eilítið hærri á miðvikudögum en aðra daga, hvernig svo sem á því stendur.