Fréttir

Glæsilegt samgöngumannvirki sem skiptir sköpum

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðinnar, flutti eftirfarandi ávarp við opnun Vaðlaheiðarganga: Góðir gestir. Ég vil byrja á því að færa ykkur góðar kveðjur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar sem því miður getur ekki verið með okkur hér í dag. Dagurinn í dag markar stóran áfanga í sögu samgangna á Íslandi. Með opnun Vaðlaheiðarganga er enn einum farartálma eytt. Ferðalangar munu ekki aftur þurfa að bíða þess að lygni eða snjóruðningstæki nái í gegnum fannfergið og vegurinn opni á ný. Nú eru liðin tæp 30 ár frá því að Vegagerðin gerði fyrst úttekt á mögulegum jarðgöngum undir Vaðlaheiði og ríflega 15 ár frá því að ákvörðun um að leita leiða til að koma hugmyndinni í framkvæmd lá fyrir með stofnun Greiðrar leiðar, félags um gerð Vaðlaheiðarganga. Í kjölfarið var svo lögð fram þingsályktunartillaga um að kanna til hlítar möguleika gangnagerðarinnar. Alþingi samþykkti svo samgönguáætlun þar sem um Vaðlaheiðargöng sagði að göngin skyldu fjármagnast með sérstakri fjáröflun, það er í samstarfsframkvæmd ríkis og einkaðila með veggjöldum. Vinna við undirbúning hélt áfram og árið 2010, tuttugu árum eftir að Vaðlaheiðargöng komu fyrst til umræðu, samþykkti Alþingi lög sem heimiluðu Vegagerðinni að taka þátt í stofnun félags um gerð Vaðlaheiðarganga. Ári síðar varð félagið Vaðlaheiðargöng ehf til og í kjölfarið fylgdi vilyrði Alþingis fyrir láni úr ríkissjóði til gangagerðarinnar. Loks var árið 2012 gerður samningur ráðuneytisins við félagið um gerð og rekstur Vaðlaheiðarganga og þar með gátu framkvæmdir hafist. Áhrif samgöngubóta á borð við Vaðlaheiðargöng verða okkur sífellt betur ljós. Vegalengdir styttast, greiðfærni og umferðaröryggi eykst. Hægt er að mæla ávinninginn í færri eknum kílómetrum og færri slysum. Ávinningurinn sem fæst í auknum tækifærum til atvinnusköpunar og nýtingar á vaxtarsprotum sem áður var erfitt að nálgast er hins vegar erfitt að mæla eða meta. Hann er hins vegar raunverulegur eins og best hefur komið í ljós ef skoðuð er byggðaþróun á Akranesi á þeim árum sem liðin eru frá því Hvalfjarðargöngin voru opnuð. Líkt og í tilfelli Hvalfjarðarganga hafa menn við byggingu Vaðlaheiðarganga ekki farið varhluta af gagnrýni á framkvæmdina og þegar leit út fyrir að göngin breyttust í lengsta gufubað mannkynssögunnar með tilheyrandi kostnaðarauka, þá voru úrtöluraddirnar margar. Það er nefnilega þannig að fáar framkvæmdir eru haldnar álíka óvissu og jarðgangagerð. Þegar komið er inn í iður fjalla geta komið upp óvæntar aðstæður sem engin nútíma tækni ræður við að kortleggja. Þrátt fyrir þessar áskoranir hefur framkvæmdaaðilum tekist að klára göngin þannig að við stöndum nú í glæsilegu samgöngumannvirki sem skiptir sköpum um öryggi og greiðfærni í samgöngum á Norðurlandi. Vaðlaheiðargöng eru lýsandi dæmi um þann driftkraft sem felst í samstarfi sem flýtir framkvæmdum sem eru hagkvæmar, stytta leiðir og auka öryggi hraðar en annars væri gerlegt og ég er sannfærð um að þrátt fyrir áföll við gerð ganganna munu þær raunir fljótt gleymast þegar ávinningurinn af bættum samgöngum verður öllum ljós. Góðir gestir. Ég óska öllu því framsýna fólki sem lagt hefur bæði hugvit og verkvit til þessa verks til hamingju með árangurinn. Ég vil einnig óska landsmönnum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga í þjóðvegakerfi landsins.

Glæsileg opnunarhátíð Vaðlaheiðarganga

Opnunarhátíð Vaðlaheiðarganga var öll hin glæsilegasta og tókst frábærlega vel.

Tókumst á við miklar áskoranir

Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, ávarpaði gesti í kaffisamsæti í Valsárskóla á Svalbarðsströnd að lokinni formlegri vígslu Vaðlaheiðarganga.

Hvílík breyting - hvílík bylting!

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, flutti ávarp við formlega opnun Vaðlaheiðarganga 12. janúar sl., fyrir hönd hluthafa /Greiðrar leiðar.

Göngin sameina og samþætta samfélög

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., flutti eftirfarandi ávarp við vígslu Vaðlaheiðarganga 12. janúar sl.: Ráðherrar, þingmenn, kæru gestir. Ég býð ykkur hjartanlega velkomin í þessi nýjustu og hlýjustu göng landsins. Það er mér gleðiefni að standa hér í dag sem stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga og fagna þessum áfanga. En ég er nýlega kominn að þessu verkefni og á miklu minna í því en svo margir aðrir. Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu einstaklingum sem hafa lagt þessu verkefni lið á einn eða annan hátt; framkvæmdastjóra félagsins, stjórnarmönnum, núverandi og fyrrverandi, stjórnmálamönnum, núverandi og fyrrverandi, ráðgjöfum, verktökum og almenningi - ykkur, kæru gestir. Kærar þakkir. Þessir aðilar – þið – hafið gert þetta að veruleika og því ber að fagna. Ég vil líka þakka þeim sem hafa veitt þessu verkefni aðhald fyrir þeirra framlag. Við þurfum umræðu um verkefni sem þetta. Við þurfum að læra af því. Og það er margt sem má læra. Þetta er hvorki staður né stund til að fara í slíkt uppgjör, en við þurfum að leggja vinnu í það. Þetta verkefni hefur þegar kennt okkur gagnleg atriði sem við höfum gert vel eða rétt. En það eru auðvitað líka atriði þar sem við hefðum getað gert betur. Áætlanagerð er afar mikilvæg í verkefnum sem þessum. Það er fróðlegt í verklok að fara yfir þær áætlanir sem voru gerðar, bæði af þeim er stóðu að verkefninu og þeim sem mæltu því mót, með rökum. Mönnum hefur verið tíðrætt um framúrkeyrslur opinberra framkvæmda síðustu misseri. Slík umræða er eðlilegt aðhald gagnvart þeim sem fara með fjármuni okkar allra. Slíka umræðu ber að vanda. Slíka umræðu verður að byggja á staðreyndum. Þið hafið eflaust mörg heyrt því fleygt að heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng sé um 17 milljarðar króna. Það er reyndar fullsnemmt að fullyrða um heildarkostnað, en stóra myndin er þó ljós og þessi tala lýsir henni ágætlega á þessari stundu. Ég hef síðustu vikur spurt þá sem hafa orðið á vegi mínum, hvað þeir telji að kostnaður við Vaðlaheiðargöng hafi orðið mikið hærri í prósentum en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á. Svörin hafa flest verið á þann veg að framúrkeyrslan hafi verið 100% eða meiri. Það er fullt tilefni til að ræða um framúrkeyrslur. Við hjá Vaðlaheiðargöngum viljum leggja lóð okkar á vogarskálar þess að við lærum af þessu verkefni. En það gerum við helst ef við tölum um staðreyndir. Staðreyndin er sú, að líklegur kostnaður við Vaðlaheiðargöng er 50% hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir, séu báðar tölur hafðar á sama verðlagi. 50%. 50% er vissulega há tala og við vitum öll hér af hverju kostnaður varð hærri en ætlað var. Hér er ekki ætlunin að skýla sér á bak við einstök áföll. Eingöngu að draga fram þá staðreynd, að kostnaður, að meðtöldum áföllnum vöxtum á framkvæmdartíma, er 50% hærri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Og þá er ekki verið að velja forsendur sem fegra stöðuna. Af stofnkostnaði eru 2 milljarðar sem hafa fallið á okkur í vexti. Önnur göng, sem byggð hafa verið af Vegagerðinni, hafa ekki þurft að telja áfallna vexti á byggingartíma til stofnkostnaðar. Hér hef ég farið þá leið að halda allri þessari fjárhæð inni í stofnkostnaðartölunni. Ella hefði framúrkeyrslan numið lægri prósentutölu. Stærsta spurningin er: Mun það ganga hjá okkur að endurgreiða lán sem tekin hafa verið vegna verkefnisins? Það verður framtíðin auðvitað að skera úr um. En það er ágætur möguleiki á því. Vegna þess, að það voru fleiri stærðir vanáætlaðar en stofnkostnaður. Umferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals í dag var líka vanáætluð stórlega árið 2011. Um 50%. Kæru gestir. Eitt hafa þessi göng ekki kostað og fyrir það vil ég þakka. Þau hafa ekki, þrátt fyrir ýmis áföll, kostað okkur mannslíf eða örkuml þeirra sem hér hafa starfað. Það er auðvitað ómetanlegt. Alveg eins og það verður ómetanlegt ef sú von okkar gengur eftir, að göngin tryggi mannslíf og öruggari samgöngur. Kæru gestir. Nú er tími til að fagna stórum áfanga. Göngin sameina og samþætta samfélög. Því til staðfestingar ætlum við að klippa á borðann. Við viljum fá alla núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn í Vaðlaheiðargöngum hf. til að aðstoða við að halda undir annan væng borðans. Á móti þeim viljum við fá alla þá þingmenn sem hafa komið að þessu verkefni. En það eru síðan Hólmfríður Ásgeirsdóttir á Hallandi á Svalbarðsströnd og Friðrik Glúmsson í Vallakoti í Þingeyjarsveit sem ætla að sýna okkur þann heiður að klippa á borðann. Þeim til aðstoðar verða Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi og Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri í Þingeyjarsveit. Og skærahaldarar eru þær Emelía Bergmann Valgeirsdóttir, Ragnhildur Edda Ágústsdóttir og Bryndís Eva Ágústsdóttir.

Formleg vígsla Vaðlaheiðarganga 12. janúar

Laugardaginn 12. janúar nk. verða Vaðlaheiðargöng opnuð með formlegum hætti og verður viðamikil dagskrá allan daginn af því tilefni. Allir eru hjartanlega velkomir. Nýársmót Hjólreiðafélags Akureryrar Kl. 09:30 Nýársmót Hjólreiðafélags Akureyrar – HFA í göngunum. Skráning og allar nánari upplýsingar á fb-síðu HFA – Nýársmót HFA. Á hjólaskíðum í gegnum göngin Kl. 11:15 / 11:30 Gönguskíðamenn í skíðagöngudeild Skíðafélags Akureyrar fara á hjólaskíðum í gegnum göngin. Rútuferð frá verslunarmiðstöðinni Glerártorgi kl. 10:50 fyrir þá sem það vilja. Ræsing kl. 11:15 í 15 km við gangamunnann Eyjafjarðarmegin (fram og til baka) og í 7,5 km kl. 11:30 við gangamunnann Fnjóskadalsmegin (skíðað að gangamunnanum Eyjafjarðarmegin). Opin hlaupaæfing Kl. 11:30 Opin hlaupaæfing í göngunum á vegum hlaupahópsins UFA-Eyrarskokks á Akureyri. Öllum velkomið að taka þátt, fólk skokkar/gengur á sínum hraða. Sjá nánar á fb-síðunni Hlaupum gegnum göngin. Rúta fyrir hlaupara/göngufólk leggur af stað frá verslunarmiðstöðinni Glerártorgi kl. 10:50. Opið hús í Gamla barnaskólanum á Skógum Kl. 12:00 – 17:00 Opið hús í Gamla barnaskólanum á Skógum í Fnjóskadal. Gamli Bjarmasalurinn verður til sýnis, einnig gamlar ljósmyndir, fróðleikur um barnaskólann, starfsemi hússins o.fl. Heitt á könnunni. Opinn kynningardagur Kl. 13:00 – 15:00 Opinn kynningardagur í Vaðlaheiðargöngum. Rölt um göngin, hjólað eða ekið milli staða í metanstrætó. Sýning um framkvæmd ganganna og kynning á vegum Norðurorku á heitu og köldu vatni í göngunum. Klukkan 13 til 14 býður World Class upp á alvöru líkamsrækt fyrir þá sem vilja taka á því. Fólk mæti léttklætt með handklæði og vatnsbrúsa. N3 plötusnúðar taka á móti gestum, fulltrúi Vaðlaheiðarganga hf. býður fólk velkomið og tónlist flutt af Söngfélaginu Sálubót, Kristjáni Edelstein, Andra Snæ (harmonika) og Þórhalli (saxófónn), akureyrsku hljómsveitinni Angurværð og Marimbasveit ungmenna úr Þingeyjarsveit. Formleg vígsla ganganna Kl. 15:30 Formleg vígsla við gangamunnann Fnjóskadalsmegin. Flutt verða ávörp og klippt á borða og göngin þar með formlega opnuð. Friðrik Ómar Hjörleifsson syngur Vor í Vaglaskógi og Vandræðaskáld frumflytja lag um Vaðlaheiðargöng. Félagar í fornbíladeild Bílaklúbbs Akureyrar aka fyrstir í gegnum göngin. Allir eru velkomnir að vera viðstaddir vígsluathöfnina. Kaffisamsæti í Valsárskóla Kl. 15:00 – 18:00 Kaffisamsæti í Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Öllum er boðið í kaffi og meðlæti á meðan húsrúm leyfir. Myndasýning, ávörp og skemmtiatriði. Rútuferðir Vegna takmarkaðs fjölda bílastæða við Vaðlaheiðargöng verður boðið upp á rútuferðir frá verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri og Valsárskóla á Svalbarðsströnd í göngin og til baka á hálftíma fresti. Fyrsta ferð frá Glerártorgi kl. 12:30 og Valsárskóla á Svalbarðsströnd kl 13:00. Rútuferðir á hálftíma fresti frá Valsárskóla til Akureyrar meðan á kaffisamsæti stendur, fyrsta ferð kl. 15:30, sú síðasta kl. 18:00. Vegna opnunarhátíðarinnar verða Vaðlaheiðargöng lokuð fyrir umferð laugardaginn 12. janúar kl. 08:00 til 18:00.

Gjaldtaka hafin í Vaðlaheiðargöngum

Í dag, 2. janúar 2019, hófst gjaldtaka í Vaðlaheiðargöngum. Göngin voru opnuð fyrir umferð 21. desember sl. og var akstur um þau gjaldfrír þar til í dag. Veggjald í gegnum göngin er greitt á vefsíðunni www.veggjald.is og þar eru allar upplýsingar á íslensku og ensku um verðskrá, fyrirkomulag gjaldtöku og ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir vegfarendur. Vefsíðan www.tunnel.is er eingöngu á ensku og er fyrst og fremst hugsuð sem einföld og þægileg greiðslusíða fyrir erlenda vegfarendur.