Fréttir

Vaðlaheiðargöng hafa skipt sköpum með sjúkraflutninga

Vaðlaheiðargöng hafa skipt sköpum - segir Eysteinn Heiðar Kristjánsson, yfirmaður sjúkraflutninga HSN í Þingeyjarsýslu Eysteinn Heiðar Kristjánsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Þingeyjarsýslum, segir að tilkoma Vaðlaheiðarganga í ársbyrjun hafi stóraukið öryggi fólks austan Vaðlaheiðar. Göngin hafi gert það að verkum að unnt hafi verið að koma á ákveðinni verkaskiptingu Akureyrar og Húsavíkur gagnvart sjúkraflutningum í Suður-Þingeyjarsýslu og jafnframt hafi þjónustan verið stóraukin. Hann segir að af tæplega 500 sjúkraútköllum á Húsavík fari sjúkrabílar með fólk í rösklega þrjúhundruð tilvika á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þarna skipti göngin sköpum, ekki síst yfir vetrarmánuðina. „Augljóslega hafa göngin stytt tímann sem tekur að koma veiku eða slösuðu fólki á sérhæft sjúkrahús á Akureyri. Hitt sem vill oft gleymast í þessu sambandi er að göngin stytta einnig tímann sem sjúkrabílarnir eru í burtu úr héraði, það tekur einfaldlega skemmri tíma að koma fólki til Akureyrar og að sama skapi tekur það skemmri tíma fyrir bílana að koma aftur austur. Þetta skiptir verulega miklu máli fyrir okkar svæði,“ segir Eysteinn. Hann nefnir líka að með göngunum hafi orðið til ákveðin verkaskipting milli sjúkraflutninga frá Húsavík og Akureyri. Nú sjái Slökkviliðið á Akureyri um sjúkraflutninga af vesturhluta svæðisins, næst austari gangamunnanum, en sjúkraflutningamenn á Húsavík hafi umsjón með austari hluta svæðisins. Í þessu sambandi nefnir Eysteinn að ef verði slys eða bráð veikindi fólks við Goðafoss, sem er eins og kunnugt er einn fjölfarnasti ferðmannnastaður á Norðurlandi, komi sjúkrabílar á svæðið bæði frá Húsavík og Akureyri. Með öðrum orðum, tilkoma Vaðlaheiðarganga hafi gert það að verkum að unnt hafi verið að stórauka öryggisþjónustu við fólk austan Vaðlaheiðar varðandi heilbrigðisþjónustu. Eysteinn rifjar upp að áður en göngin komu til sögunnar hafi vaktmaður sjúkraflutninga á Húsavík verið vakandi og sofandi yfir veðurspá og ástandi vega í Víkurskarði og Dalsmynni. Sem kunnugt er séu veður oft mjög válynd í Víkurskarði í ákveðnum áttum yfir veturinn og Dalsmynnið geti einnig verið varhugavert vegna snjóflóðahættu í vondum vetrarveðrum. Eftir sem áður séu vissulega staðir í Ljósavatnsskarði þar sem færð geti spillst en mun auðveldara sé að halda þeim vegarkafla opnum en Víkurskarði. Vaðlaheiðargöngin hafi því tvímælaust sannað sig nú þegar hvað öryggi fólks varðar. „Á síðasta ári fóru sjúkrabílar hér á Húsavík í 470 verkefni og í miklum meirihluta þeirra fórum við með sjúklingana á Sjúkrahúsið á Akureyri. Ég hef ekki nákvæma tölu en það lætur nærri að sjúkrabíll fari frá okkur í gegnum Vaðlaheiðargöng að jafnaði einu sinni á dag, allt árið,” segir Eysteinn. Þessu til viðbótar nefnir hann að Vaðlaheiðargöng hafi, ef svo megi að orði komast, tryggt aukið flæði sérhæfðs starfsfólks á milli stofnana innan Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og stuðlað þannig að betri þjónustu, bæði austan og vestan ganganna.

Vaðlaheiðargöng undirrita loftlagsyfirlýsingu Festu

Þann 16. september sl., á Degi íslenskrar náttúru, undirrituðu fulltrúar nítján fyrirtækja og stofnana á Akureyri, þar á meðal Vaðlaheiðargöng, loftslagsyfirlýsingu Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Loftslagsyfirlýsingin hljóðar svo: „Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum. Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að: 1. Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda 2. Minnka myndun úrgangs 3. Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.“ Hin fyrirtækin og stofnanirnar sem undirrituðu yfirlýsinguna eru: Akureyrarbær, Hafnarsamlag Norðurlands, ProMat, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Mjólkursamsalan, Ekill/Ekja, Toyota á Akureyri, Vistorka, Orkusetrið, HGH verk, Icevape, Norðlenska, Menningarfélag Akureyrar, Zenon, Enor, Markaðsstofa Norðurlands, Icelandair Hotels Akureyri og Sjúkrahúsið Á Akureyri. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að með þessari yfirlýsingu vilji Vaðlaheiðargöng leggja sitt af mörkum með opnu kolefnisbókahaldi þar sem komi skýrt fram ávinningurinn af því að keyra í gegnum göngin. Með því að aka göngin sé ótvírætt dregið úr útblæstri og loftmengun og þann ávinning sé unnt að mæla og gefa reglulegar upplýsingar um, eins og yfirlýsingin feli í sér.