Glæsilegt samgöngumannvirki sem skiptir sköpum

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, flutti eftirfarandi ávarp við opnun Vaðlaheiðarganga:
 
Góðir gestir.
 
Ég vil byrja á því að færa ykkur góðar kveðjur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar sem því miður getur ekki verið með okkur hér í dag.  
 
Dagurinn í dag markar stóran áfanga í sögu samgangna á Íslandi.  Með opnun Vaðlaheiðarganga er enn einum farartálma eytt.  Ferðalangar munu ekki aftur þurfa að bíða þess að lygni eða snjóruðningstæki nái í gegnum fannfergið og vegurinn opni á ný.  
 
Nú eru liðin tæp 30 ár frá því að Vegagerðin gerði fyrst úttekt á mögulegum jarðgöngum undir Vaðlaheiði og ríflega 15 ár frá því að ákvörðun um að leita leiða til að koma hugmyndinni í framkvæmd lá fyrir með stofnun Greiðrar leiðar, félags um gerð Vaðlaheiðarganga. 
 
Í kjölfarið var svo lögð fram þingsályktunartillaga um að kanna til hlítar möguleika gangnagerðarinnar. Alþingi samþykkti svo samgönguáætlun þar sem um Vaðlaheiðargöng sagði að göngin skyldu fjármagnast með sérstakri fjáröflun, það er í samstarfsframkvæmd ríkis og einkaðila með veggjöldum. Vinna við undirbúning hélt áfram og árið 2010, tuttugu árum eftir að Vaðlaheiðargöng komu fyrst til umræðu, samþykkti Alþingi lög sem heimiluðu Vegagerðinni að taka þátt í stofnun félags um gerð Vaðlaheiðarganga. Ári síðar varð félagið Vaðlaheiðargöng ehf til og í kjölfarið fylgdi vilyrði Alþingis fyrir láni úr ríkissjóði til gangagerðarinnar. Loks var árið 2012 gerður samningur ráðuneytisins við félagið um gerð og rekstur Vaðlaheiðarganga og þar með gátu framkvæmdir hafist.
 
Áhrif samgöngubóta á borð við Vaðlaheiðargöng verða okkur sífellt betur ljós. Vegalengdir styttast, greiðfærni og umferðaröryggi eykst. Hægt er að mæla ávinninginn í færri eknum kílómetrum og færri slysum. Ávinningurinn sem fæst í auknum tækifærum til atvinnusköpunar og nýtingar á vaxtarsprotum sem áður var erfitt að nálgast er hins vegar erfitt að mæla eða meta. Hann er hins vegar raunverulegur  eins og best hefur komið í ljós ef skoðuð er byggðaþróun  á Akranesi á þeim árum sem liðin eru frá því Hvalfjarðargöngin voru opnuð. 
 
Líkt og í tilfelli Hvalfjarðarganga hafa menn við byggingu Vaðlaheiðarganga ekki farið varhluta af gagnrýni á framkvæmdina og þegar leit út fyrir að göngin breyttust í lengsta gufubað mannkynssögunnar með tilheyrandi kostnaðarauka, þá voru úrtöluraddirnar margar.  Það er nefnilega þannig að fáar framkvæmdir eru haldnar álíka óvissu og jarðgangagerð. Þegar komið er inn í iður fjalla geta komið upp óvæntar aðstæður sem engin nútíma tækni ræður við að kortleggja.  Þrátt fyrir þessar áskoranir hefur framkvæmdaaðilum tekist að klára göngin þannig að við stöndum nú í glæsilegu samgöngumannvirki sem skiptir sköpum um öryggi og greiðfærni í samgöngum á Norðurlandi. 
 
Vaðlaheiðargöng eru lýsandi dæmi um þann driftkraft sem felst í samstarfi sem flýtir framkvæmdum sem eru hagkvæmar, stytta leiðir og auka öryggi hraðar en annars væri gerlegt og ég er sannfærð um að þrátt fyrir áföll við gerð ganganna munu þær raunir fljótt gleymast þegar ávinningurinn af bættum samgöngum verður öllum ljós. 
 
Góðir gestir. 
Ég óska öllu því framsýna fólki sem lagt hefur bæði hugvit og verkvit til þessa verks til hamingju með árangurinn. Ég vil einnig óska landsmönnum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga í þjóðvegakerfi landsins.