Tókumst á við miklar áskoranir

Frá fjölmennu kaffisamsæti í Valsárskóla á Svalbarðsströnd 12. janúar sl. í tilefni af formlegri opn…
Frá fjölmennu kaffisamsæti í Valsárskóla á Svalbarðsströnd 12. janúar sl. í tilefni af formlegri opnun Vaðlaheiðarganga.

Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, ávarpaði gesti í kaffisamsæti í Valsárskóla að lokinni formlegri vígslu Vaðlaheiðarganga:

Kæru samstarfsmenn, ráðherrar, fulltrúar verkkaupa, alþingismenn, sveitarstjórnarmenn og Íslendingar almennt.

Í dag fögnum við mjög langþráðum áfanga í Vaðlaheiðargöngum þegar þau eru opnuð formlega fyrir umferð.  Nú er liðið um fimm og hálft ár frá því fyrsta sprenging var í verkefninu í júlí 2013 og hefur hér ýmislegt á daga drifið síðan.  

Af þessu fimm og hálfa ári tókumst við í tæp 4 ár í gangagreftrinum við miklar áskoranir í báðum endum ganganna sem fram til þessa hafa verið óþekktar í jarðgangagerð á Íslandi. Þó svo að áskoranirnar hafi verið stórar sýndum við aldrei neinn bilbug á okkur heldur héldum ótrauð áfram að settu marki, að komast í gegnum fjallið og að sigrast á þessum áskorunum. Það hefði ekki verið hægt nema fyrir dugnað, áræði, kjark, þolinmæði, þrautseigju og snjöll úrræði okkar starfsmanna og fyrir það vil ég þakka ykkur.    Þessar áskoranir hafa verið í umfjöllun fjölmiðla en enn þann dag í dag held ég að fæstir viti í raun við hvað var að glíma inni í fjallinu.  Vonandi ratar myndefni sem til er af þessum atburðum fyrir augu almennings svo hann öðlist skilning á þeim aðstæðum sem við var að glíma og um leið öðlist skilning á því hvers vegna verkefnið hefur tafist og kostað meira fé en til stóð í upphafi.  

Það er kannski ástæða fyrir þeim hremmingum sem herjað hafa á verkið og fjallið hefur verið okkur svona erfitt. Okkur urðu þær ekki ljósar fyrr en of seint, en í ljós kom að á ströndinni utan við gangamunnann Eyjafjarðarmegin eru björg sem kölluð eru Hallandsbjörg. Í björgum þessum hefur það verið hald manna að þar væri kaupstaður huldufólksins í Eyjafirði.  Hafa menn merkt það af ýmsu s.s. undarlegum skipakomum að björgunum og flutningalestum þaðan en ekki síður af mikilli ljósadýrð sem sést hefur þar endrum og sinnum.

Þegar við heyrðum fyrst af þessu í lok gangagraftrarins 2017 rann upp fyrir okkur að það væru álfarnir sem væru að gera okkur erfitt fyrir þar sem við höfðum ekki samið við þá um það hvernig staðið skyldi að framkvæmdum.  Alls staðar þar sem við vitum af álfum og huldufólki sem rekst á við framkvæmdir á okkar vegum vinnum við í samvinnu við þau með góðum árangri. Ekki alls fyrir löngu færðum við t.d. 70 tonna bjarg úr vegstæði Álftanesvegar en í því höfðu álfar búsetu. Er ég viss um að ef meira samráð hefði verið haft við álfana þá hefði margt farið betur. Ég vona að þeir hafi tekið okkur í sátt og geti nú brugðið sér, án þess að borga, stutta vegalengd yfir í Fnjóskadal og andað þar að sér þingeysku fjallalofti.

Þessi framkvæmd hefur ekki verið hættulaus, langt frá því, og stundum hefur munað litlu að illa færi.  Fyrir okkur sem stóðu að framkvæmdinni er það mikilvægasta við þennan stóra áfanga hér í dag að við þetta krefjandi verkefni sem unnið var við hættulegar aðstæður hlaut enginn varanlegan skaða af og er ekki nokkur vafi á því að Heilög Barbara, verndarengill okkar, hefur vakað yfir okkur. Í lok dags er það mikilvægasta af öllu saman, að allir hafið komið heilir heim.  

Ýmsar úrtöluraddir hafa verið áður en þessi framkvæmd fór af stað og ekki síður fengu þær vatn á myllu sína þegar illa gekk í framkvæmdinni. Ýmsum bröndurum var hent í loftið á kostnað framkvæmdarinnar svo sem að nú væri búið að gera lengstu bílaþvottastöð í heimi þegar verst lét í heita vatninu á árunum 2014 og 2015 eða að hægt væri að selja í sjóstangaveiðitúra við mjög góðar aðstæður þegar verst lét í kalda vatninu og göngin fyllst af vatni 2015 og 2016.

Eftir að göngin opnuðu hafa ýmis not fyrir þau komið upp sem enginn sá fyrir áður, svo sem að bæjarrúnturinn á Akureyri fari nú í gegnum göngin eða að nærsveitamenn ganganna keyri bíla sína inn í þau þar sem víða er yfir 20 stiga hita og þíði þar upp bíla sína.  Svo eru það jarðböðin sem eflaust munu mala gull. Segið svo að þessi göng hafi verið unnin til einskis.

Nú þurfa þessir úrtölumenn og grínistar að finna sér annað efni að tala um og gera grín að en ég get fullyrt að með þessum göngum hefur einum allra erfiðasta farartálma á þjóðvegi 1 á vetrum verið rutt úr vegi. Ég get vitnað um það af persónulegri reynslu því ég hef tvisvar tekið þátt í að hjóla hringveginn og veit því hvernig Víkurskarðið er á fótinn í samanburði við aðra fjallvegi og get staðfest að það er erfiðasta hindrunin á hringveginum.

Það er ekki nóg með að þessi framkvæmd ryðji erfiðasta farartálmanum á þjóðvegi 1 úr vegi heldur á hún líka lengsta orð Íslandssögunnar og sló reyndar gamla metið, sem framkvæmdin átti reyndar sjálf í áratugi áður en að framkvæmdinni kom sem var: Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúrsútidyralyklakippuhringurinn (67 stafir) í Vaðlaheiðargangavegavinnuverkfærageymsluskúrseinkaframkvæmdarríkisábyrgðarútidyralyklakippuhringurinn (101 stafur) (50% aukning) Segið svo að ríkisábyrgðin hafi verið til einskis!

Ég vil að lokum þakka því fjölþjóðlega teymi sem vann við gerð ganganna frá Íslandi, Sviss, Austurríki, Þýskalandi, Slóvakíu, Króatíu, Tékklandi eða Póllandi, fyrir framlag ykkar og fórnfúst starf. Eins og þið heyrið af upptalningu þessari þá komu starfsmenn frá ýmsum stöðum í heiminum að gerð þessara ganga, menn og konur sem voru tilbúin að leggja land undir fót og koma um langan veg frá fjölskyldum sínum til að leggja þessari jarðgangagerð lið. 

Ég vil einnig þakka samstarfsaðilum okkar, birgjum og undirverktökum fyrir gott samstarf sem og fulltrúum verkkaupa fyrir samstarfið sem á stundum var erfitt og óska Íslendingum öllum til hamingju með þessa samgöngubót.