Göngin sameina og samþætta samfélög

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., flytur ávarp við vígslu Vaðlaheiðarganga…
Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., flytur ávarp við vígslu Vaðlaheiðarganga.

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., flutti eftirfarandi ávarp við vígslu Vaðlaheiðarganga 12. janúar sl.:

Ráðherra, þingmenn, kæru gestir.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin í þessi nýjustu og hlýjustu göng landsins.

Það er mér gleðiefni að standa hér í dag sem stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga og fagna þessum áfanga. Ég er nýlega kominn að þessu verkefni og á miklu minna í því en svo margir aðrir.

Ég vil því nota þetta tilefni og þakka þeim fjölmörgu einstaklingum sem hafa lagt þessu verkefni lið á einn eða annan hátt: Framkvæmdastjóra félagsins, stjórnarmönnum, núverandi og fyrrverandi, stjórnmálamönnum, núverandi og fyrrverandi, ráðgjöfum, verktökum og almenningi, ykkur, kæru gestir. Kærar þakkir.

Þessir aðilar – þið – hafið gert þetta að veruleika og því ber að fagna.

Ég vil líka þakka þeim sem hafa veitt þessu verkefni aðhald fyrir þeirra framlag. Við þurfum umræðu um verkefni sem þetta. Við þurfum að læra af því. Og það er margt sem má læra. Þetta er ekki staður eða stund til að fara í slíkt uppgjör, en við þurfum að leggja vinnu í það.

Áætlanagerð er afar mikilvæg í verkefnum sem þessum. Það er fróðlegt í verklok að fara yfir þær áætlanir sem voru gerðar, bæði af þeim er stóðu að verkefninu og þeim sem mæltu því mót.

Þið hafið eflaust mörg heyrt því fleygt að heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng sé um 17 milljarðar króna. Það er reyndar fullsnemmt að fullyrða um það hver verður heildarkostnaður, en stóra myndin er þó ljós og þessi tala lýsir henni ágætlega á þessari stundu.

Ég hef síðustu vikur spurt þá sem hafa orðið á vegi mínum, hvað þeir telji að kostnaður við Vaðlaheiðargöng hafi orðið mikið hærri í prósentum en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á. Svörin hafa flest verið á þann veg að framúrkeyrslan hafi verið 100% eða meiri.

Það er fullt tilefni til að ræða um framúrkeyrslur. Við hjá Vaðlaheiðargöngum viljum leggja okkar á vogarskálar þess að við lærum af þessu verkefni. En það gerum við helst ef við tölum um staðreyndir.

Staðreyndin er sú, að líklegur kostnaður við Vaðlaheiðargöng er 50% hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir, séu báðar tölur hafðar á sama verðlagi. Fimmtíu prósent. Vissulega er 50% er há tala og við vitum öll hér af hverju kostnaður varð hærri en ætlað var. Hér er ekki ætlunin að skýla sér á bak við einstök áföll. Eingöngu að draga fram þá staðreynd, að kostnaður, að meðtöldum áföllnum vöxtum á framkvæmdartíma, er 50% hærri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Og þá er ekki verið að velja forsendur sem fegra stöðuna.

Af stofnkostnaði eru 2 milljarðar sem hafa fallið á okkur í vexti. Önnur göng, sem byggð hafa verið af Vegagerðinni, hafa ekki þurft að telja áfallna vexti á byggingartíma til stofnkostnaðar. Hér hef ég farið þá leið að halda allri þessari fjárhæð inni í stofnkostnaðartölunni. Ella hefði framúrkeyrslan numið lægri prósentutölu.

Nú er stóra spurningin auðvitað þessi: Mun það ganga hjá okkur að endurgreiða lán sem tekin hafa verið vegna verkefnisins? Það verður framtíðin auðvitað að skera úr um. En það er ágætur möguleiki á því. Vegna þess, að það voru fleiri stærðir vanáætlaðar en stofnkostnaður. Umferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals í dag var líka vanáætluð stórlega árið 2011. Um 50%.

Kæru gestir.

Þessi göng gera Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur að öflugra atvinnusvæði, þar sem fyrirtæki og þjónustuaðilar geta af öryggi boðið þjónustu á öllu svæðinu frá Tjörnesi að Tröllaskaga.

Það er ekki aðeins að þessu stóra atvinnusvæði fylgi möguleikar á hagræðingu, betri þjónustu og sparnaði, ekki síst í opinberri þjónustu, heldur fylgja því möguleikar á að taka við stærri og kröfuharðari viðskiptavinum, aðilum sem ella hefðu aðeins talið sér fært að starfa í þéttbýlinu sunnan heiða.

Ávinningurinn af þessu verður ekki reiknaður til fjár. Þetta verður samfélagslegur arður sem við munum í sameiningu sjá og njóta á næstu áratugum.

Þegar þessi ávinningur hefur raungerst mun enginn spyrja um það hvað þessi göng kostuðu, aðeins fagna ávinningnum sem við öllum mun blasa.

Kæru gestir.

Eitt hafa þessi göng ekki kostað og fyrir það vil ég þakka. Þau hafa ekki, þrátt fyrir ýmis áföll, kostað okkur mannslíf eða örkuml þeirra sem hér hafa starfað. Það er auðvitað ómetanlegt. Alveg eins og það verður ómetanlegt ef sú von okkar gengur eftir, að göngin spari mannslíf og tryggi öruggari samgöngur.

Kæru gestir.

Nú er tími til að fagna stórum áfanga. Göngin sameina og samþætta samfélög. Því til staðfestingar ætlum við að klippa á borðann. Við viljum fá alla þá sem hér eru og hafa verið stjórnarmenn í Vaðlaheiðargöngum hf. til að aðstoða við að halda undir annan væng borðans. Á móti þeim viljum við fá alla þá sem hafa sem þingmenn komið að þessu verkefni. En það eru síðan Hólmfríður Ásgeirsdóttir á Hallandi á Svalbarðsströnd og Friðrik Glúmsson í Vallakoti í Þingeyjarsveit sem ætla að sýna okkur þann heiður að klippa á borðann. Þeim til aðstoðar verða Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi og Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri í Þingeyjarsveit. Og skærahaldarar eru þær Emelía Bergmann Valgeirsdóttir, Ragnhildur Edda Ágústsdóttir og Bryndís Eva Ágústsdóttir.