Hvílík breyting - hvílík bylting!

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, flutti ávarp við formlega opnun Vaðlaheiðarganga 12. janúar sl., fyrir hönd hluthafa/Greiðrar leiðar:

Loksins þagna raddirnar í útvarpinu sem skýra frá því að Víkurskarð sé ófært. Loksins hætta okkur að berast fréttir af því að björgunarsveitir hafi farið á Víkurskarð að vetrarlagi til að losa bíla og fólk úr hremmingum í þessari miklu snjóakistu. Loksins, loksins hafa verið opnuð göng í gegnum Vaðlaheiðina sem greiða leið á milli tveggja stærstu þéttbýlisstaða Norðurlands.

Með opnun Vaðlaheiðarganga er stigið stórt skref í þá átt að stórbæta samgöngur hringinn í kringum Ísland. Hér eftir keyrum við í gegnum heiðina. Hvílík breyting – hvílík bylting í samgöngum Norðlendinga og um leið allra Íslendinga.
Hér hefur verið unnið þarft og gott verk sem hefur mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Allar vegabætur, hvar sem er á landinu, eru í þágu allra Íslendinga og þjóðinni til heilla.

Allt orkar tvímælis þá gjört er. Menn lyfta varla skóflu við vegabætur hérlendis öðruvísi en að það sé gagnrýnt. Vaðlaheiðargöngin hafa svo sannarlega ekki farið varhluta af því. Það varð ekki hjá því komist að það tæki sinn tíma og kostaði skildinginn að grafa í gegnum heiðina. Hins vegar er ég þess fullviss að gagnrýnisraddirnar þagna þegar fólk upplifir sjálft þessa stórkostlegu samgöngubót og ég veit líka að þær erfiðu hindranir sem varð að yfirstíga við verkið gleymast fljótt.

Samgöngubætur skipta gríðarmiklu máli þegar kemur að því að efla og styrkja innviði samfélagsins. Þær eru grunnurinn, upphaf og endir allar uppbyggingar. Vaðlaheiðargöngin auka umferðaröryggi, bæta samstarf sveitarfélaga á Norðurlandi, stækka og styrkja okkur sem eitt atvinnusvæði og eitt þjónustusvæði (og sannarlega bæta þau aðgengi Húsvíkinga að Græna hattinum og tónleikum Ljótu hálfvitanna þar).

Við verðum að muna að við erum ein þjóð í þessu landi. Við verðum einnig að muna að við eigum allt undir því að samtakamáttur okkar er það afl sem tryggir velferð okkar og sjálfstæði, varðveitir menningu okkar og stuðlar að bjartri framtíð. Með samtakamætti okkar getum við tryggt bættar samgöngur um allt land með öruggu vegakerfi.

Megi gæfan fylgja öllum vegfarendum sem fara um Vaðlaheiðargöngin og megi allar góðar vættir vaka yfir byggðum Norðurlands. Til hamingju.