Mesta umferð um Vaðlaheiðargöng til þessa laugardaginn fyrir páska

Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar á umferð, annars vegar í Vaðlaheiðargöngum og hins vegar í Víkurskarði, var rösklega 17% meiri umferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals um nýliðna páska samanborið við páskana 2018. Ef til vill hefði mátt búast við 2-5% aukinni umferð en mögulega er skýringa á þessari miklu aukningu að leita í því að páskarnir voru óvenju seint að þessu sinni, síðari hluta apríl, en árið 2018 voru þeir í mars. Það kann að vera að fleiri hafi verið á faraldsfæti vegna þess hversu seint páskarnir voru í ár og veður var gott, í það minnsta var vitað að óvenju margir gestir sóttu Akureyri heim um páskana í ár.

Byggt er á umferðartalningu Vegagerðarinnar frá þriðjudegi í dymbilviku til og með öðrum degi páska. Mest var umferðin á skírdag föstudaginn langa og laugardaginn fyrir páska en þann dag fóru 2.055 bílar um Vaðlaheiðargöng sem er mesta umferð á einum sólarhring um göngin til þessa.