Aðalfundur Vaðlaheiðarganga og málþing var haldið 29.5.2017

Aðalfundur Vaðlaheiðarganga og málþing var haldið 29.5.2017
Friðrik Friðriksson, rekstrarráðgjafi hefur tekið sæti í stjórn Vaðlaheiðarganga, en fjármála- og efnahagsráðherra skipaði hann í stað Andra Teitssonar sem verður varamaður hans í stjórn. Áfram sitja Pétur Þór Jónasson og Ágúst Torfi Hauksson í stjórn, og óbreytt er með varamenn þeirra Dagbjört Jónsdóttir og Halldór Jóhannsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var Friðrik kosin formaður. Eftir fundi dagsins var Málþing í Hofi sem tókst mjög vel, fundastjórn var í höndum Sigrúnar Björk Jakobsdóttur.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitastjóri Þingeyjarsveitar fjallaði um áhrif á samfélagið með tilkomu ganganna. Meðal áherslupunkta voru, aukið umferðaöryggi, stytting ferðatíma, stækkun atvinnu- og þjónustusvæðiðs, betri búsetuskilyrði og jákvæð áhrif á byrggðaþróun.

Björn A. Harðarsson, umsjónarmaður verkkaupa og yfirmaður eftirlits á framkvæmdinni talaði um þá þætti sem hafa valdið lengri verktíma og auknum kostnaði við gangagerðina. En Björn hefur yfir 30 ára reynslu í jarðgangagerð á Íslandi og sagði að ekki væri óalgengt að lenda í einu til tveimur atvikum í jarðgangagerð og tók dæmi um mun meira vatnsflæði í Vestfjarðargöngum og Héðinsfjarðargöngum heldur en í Vaðlaheiðargöngum. Svipaður hiti hafi verið bæði í Hvalfjarðargöngum og Bakkagöngum en á mjög takmörkuðu svæði eða um 10-20 metrum en í VHG var hitasvæðið um 2 km. Þá væri ekki óalgengt að laust efni hrynji úr lofti ganga á meðan verið er að grafa þau en þó ekkert í samanburði við það sem gerðist í VHG Fnjóskadalsmegin þar sem 12 metra breið missgengissprunga hrundi og óvíst hversu hátt upp í sprunguna laust efni hrundi en giska á 2-3 þúsund rúmmetrar en í kjölfarið koma mikið innflæði af köldu vatni sem dælur réðu ekki við og því fylltust göngin af vatni en verið var að grafa niður í móti. Öll þessi óhöpp/atvik voru kostnaðarsöm og tafasöm ásamt því að verulegar magnaukningar voru í bergþéttingu og hefur aldrei áður á Íslandi svona stór hluti af jarðgöngum verið með samfellda bergþéttingu til að hindra að lághitavatn kæmist inn í göngin.

Friðleifur Ingi Brynjarsson frá umferðadeild Vegagerðarinnar fór yfir umferðaþróun um Víkurskarð og umferðaspár. Það sem kom fram hjá honum var meðal annars að í umferðakönnun árið 2005 voru ÁDU 994 bílar, umferðamesti tíminn var milli 17-18, hlutfall þungra bíla var um 8%, 43% fóru sjaldnar en 1x í viku, erlendir ökumenn voru 13% og kynjahlutfallið 3/4 kk og 1/4 kvk. Þá kom einnig fram að dreifing milli mánaða þannig að umferð júní,júlí og ágúst voru langt yfir meðalumferð, september með meðalumferð en aðrir mánuðir með minni umferð sem mætti skýra að hluta til vegna veðurfarslegra aðstæðna.  Einnig kom fram að Seðlabankinn bað um að spá sem unnin var árið 2011 sem áætlaði 2.810 ÁDU (háspá) árið 2030 yrði endurskoðu. Árið 2012 var ný spá gerð sem áætlaði 2.350 ÁDU (háspá) árið 2030.  Vegna mikillar breytingar á umferð var gerð ný spá árið 2016 og er nú gert ráð fyrir að háspá árið 2030 verði 3.200 ÁDU eða 36% aukning frá því spáð var árið 2012. Að lokum sýndi Friðleifur yfirlit fyrir jarðgöng á Íslandi þar sem kom fram að raunumferð um göng er að meðaltali 29% meiri en Vegagerðin spáir fyrir um. 

Ólafur Ásgeirsson, hjá IFS Greiningu sem hefur séð um útreikninga í tengslum við viðskiptaáætlun VHG hf í þeim tilgangi að meta greiðslugetu og áætla lokagjalddaga fyrir langtímafjármögnun VHG. Ólafur sagði að mikil óvissa væri um allar forsendur sem myndi skýrast mikið við fyrstu 2-3 árin eftir opnun. Ólafur og fór svo yfir helstu forsendur og niðurstöður.  

Eftir kynningar var kaffihlé og umræður. Vaðlaheiðargöng hf þakkar framsögumönnum, fundastjóra og gestum fyrir þáttökuna.